Velkomin á vefsíðu EPOCA!

Í hverju felst súrnun hafsins?

Flestir hafa heyrt getið um hnattræna hlýnum sem afleiðingu notkunar manna á jarðefnaeldsneyti (kolum, gasi og olíu).  Súrnun sjávar er önnur afleiðing þess, en mun minna þekkt, að á hverjum degi bætist í lofthjúpinn 79 miljón tonn af koltvíoxíði (CO2) vegna bruna á jarðefnaeldsneyti og vegna sementsframleiðslu og eyðingu skóga.  Frá upphafi iðnvæðingar hafa heimshöfin dregið í sig um þriðjung þess koltvíoxíðs sem borist hefur út í lofthjúpinn vegna athafna manna.  Höfin gegna þannig lykilhlutverki í að milda veðurfarsbreytingar.  Ef ekki nyti hafsins við væri koltvíoxíðstyrkur í lofti mun hærri en raun ber vitni og afleiðingar hnattrænnar hlýnunar öfgafyllri.

Áhrif súrnunar sjávar eru enn lítt þekkt en einna líklegast er að hún bitni á vexti lífvera sem mynda stoðvef úr kalki eða kalkskeljar, nefna má kóralla og krækling.  Það er reyndar misvísandi að nota orðatiltækið “súrnun sjávar” því það stefnir ekki í að sjórinn verði súr, þ. e. að sýrustig hans, pH, fari niður fyrir 7.  Hér merkir “súrnun” því að pH sjávar lækki, færist í átt að súrnun á pH kvarðanum.

Nú á tímum er meðal pH sjávar 8.1 (sjór er veikt basískur) sem er 0.1 stigi lægra en var fyrir um 200 árum við upphaf iðnvæðingar.  Þessi breyting virðist ekki ýkja stór en hafa verður í huga að pH kvarðinn er lógaritmískur líkt og Richter jarðskjálftakvarðinn.  Lækkun um 0.1 pH einingu þýðir að styrkur vetnisjónar, (H+), hefur aukist 30%.  Áætlað er að pH kunni að falla niður í 7.8 á þessari öld, en það eru milljónir ára frá því að vistkerfi hafsins bjuggu við það gildi.

 

Hvað er EPOCA?

 

EPOCA verkefnið (European Project on OCean Acidification) er hluti  7. rannsóknaáætlunar ESB.  EPOCA var hleypt af stokkum í júní 2008 og stendur í 4 ár.  Megintilgangur þess er að auka skilning okkar á afleiðingum sýrustigsbreytinga í hafinu fyrir líffræði, vistfræði og lífefnafræði hafsins sem og á samfélag manna.

Í EPOCA verkefninu koma saman á annað 160 vísindamanna við 32 stofnanir í 10 Evrópulöndum (Belgíu, Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Sviss og Bretlandi).

 

Umsýsla verkefnisins

Verkefnisstjóri: Jean-Pierre Gattuso

Forstöðumaður: Lina Hansson

Upplýsingastjóri: Anne-Marin Nisumaa

 

Miðstöð verkefnisins:

Laboratoire d'Océanographie (CNRS/Université Pierre et Marie Curie, Paris 6)

BP 28

06234 Villefranche-sur-mer Cedex

France

Tel: +33 493 76 38 69

Fax: +33 493 76 38 34

 

 

Hver eru markmið í EPOCA?

Rannsóknir innan EPOCA eru á fjórum sviðum.

Fyrsta markmið EPOCA er að skrásetja breytingar sem orðið hafa í tímans rás á efnafræði sjávar og lífverum hafsvæða.  Beitt verður aðferðum jarðsögurannsókna á ýmis gagnasöfn: Af götungum og djúpsjávar kóröllum fæst saga breytinga á efnafræði sjávar (karbónati, næringarefnum og snefilmálmum) sem tengd verður nútíma athugunum á efnafæði sjávar og lífverum hafsins.

Í öðru lagi verður í EPOCA lögð áhersla á að meta áhrifin af sýrustigsbreytingum sjávar á lífverur hafsins og vistkerfi.  Þýðingarmikil líf- og jarðefnaferli verða rannsökuð svo sem kalkmyndun lífvera, frumframleiðni og niturbinding.  Beitt verður margvíslegri tækni allt frá aðferðum sameindalíffræði til nálgana á grundvelli lífeðlisfræði og vistfræði.  Rannsókuð verða áhrif breytinga með tilraunum í rannsóknastofum og í hafinu.  Til rannsókna verða teknar lífverur sem vega þungt í vistkerfum, í lífefnaferlum eða vegna þess að nýting þeirra er efnahagslega mikilvæg.

Á þriðja sviði EPOCA verða líkanareikningar.  Þar verður upplýsingum um áhrif sýrustigsbreytinga í hafinu á efna-, jarðefna- og lífefnaferli fléttað inn í reiknilíkön sem taka á veðurfarsbreytingum og samspili lofts og hafs.  Sérstaklega verður hugað að svörunum í hringrásum kolefnis, niturs, brennisteins og járns við breytingum á lífskilyrðum.  Jafnframt að áhrifum veðurfarsbreytinga á þessar aðstæður og hringrásir.

Ennfremur verður í EPOCA lagt mat á óvissur, áhættur og þrösklda ("tipping points") sem tengjast áhrifum sýrustigsbreytinga allt frá vettvangi sameinda, fruma, lífvera og vistkerfa til hins hnattræna.  Það verður einnig metið hver þróun CO2 losunar þurfi að verða svo ekki verði farið yfir þröskulda og lýst ástandsbreytingum sem annars kunna að verða með tilheyrandi áhættum fyrir höf og jörð.

 

 This web site is hosted by Observatoire Océanologique de Villefranche sur Mer